news

Sólveig sérkennslustjóri með erindi á Menntakviku

02 Okt 2019

Á föstudaginn n.k. verður árleg ráðstefna Menntavísindasviðs sem nefnist Menntakvika: Rannsóknir, nýbreytni og þróun í Háskóla Íslands, sjá nánar https://menntakvika.hi.is/

Menntakvika hefur skapað sér sess sem einn mikilvægasti farvegur Háskólans fyrir miðlun á þekkingu og rannsóknum sem snúa að menntamálum, skóla- og frístundastarfi, sem og velferð og virkri þátttöku allra í samfélaginu.

Menntarannsóknir eru grunnurinn að því að varpa ljósi á hin flóknu öfl sem móta nám og kennslu, sem móta félagslegan veruleika okkar allra. Í þeim flókna og síbreytilega heimi sem við búum í þurfum við ávallt að endurnýja þekkingu okkar, endurskoða og jafnvel umbylta starfsháttum.

Gaman er að segja frá því en hún Sólveig sérkennslustjóri mun kynna M-ed rannsóknina sína í einni málstofunni en rannsókn hennar ber heitið "Leikum, lesum og spjöllum". Rannsóknin var starfendarannsókn og meginmarkmið hennar var að skoða með samstarfsmönnum starfshætti á deildinni, til að varpa ljósi á hvernig fjölga mætti tækifærum barna, með íslensku sem annað mál, til að efla íslenskan orðaforða sinn. Megináhersla var lögð á málumhverfi barnanna, málörvun í frjálsum leik og í lestrarstundum.